Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Flutningar hvað ?
27.6.2008 | 15:43
Er ég að flytja eftir 3-4 daga ?
Það mætti halda ekki, ég er í rólegheitum hjá Björg systir að passa, flutti inn hjá henni á miðvikudagskvöld og fer ekki heim fyrr en á sunnudag. Björg og Siggi fóru með Árna Þór til Vestmannaeyja á fótboltamót og ég er að passa Sigurrós Birnu á meðan.
Mamma er nú búin að lofa passa fyrir mig á morgun þá kemst ég heim til þess að þrífa og pakka, annars er ég búin að pakka svo miklu að við höfum eiginlega ekkert heim að gera, rúmið er farið í geymslu, öll föt komin í poka og búið að pakka öllu niður úr eldhúsinu, þannig að það er bara eftir sófasettið og baðherbergið er alveg eftir. Við Birna vorum bara glaðar að komast hingað að passa því þá gætum við sofið í rúmi en ekki stofusófanum.
Ég er búin að hafa gaman af því að passa frænku mína, ég vissi ekki að það væri svona langt síðan mín voru á þessum aldri (4 ára), en það er greinilega svo.
Hún minnir mig á að ég þurfi að minna hana á að tannbursta sig og setja á sig sólarvörn, svo minnir hún mig á það að hún eigi húsið en ekki ég og að hún eigi að svara í símann sinn en ekki ég. Hún spyr mig hvort ég sé búin að læsa öllum hurðum og slökkva ljósin áður en við förum að sofa.
Hún sem sagt stjórnar mér fram og til baka, ég læt vel af stjórn og verð örugglega búin að gera hana vitlausa af frekju þegar foreldrarnir koma heim.
JOKE
25.6.2008 | 01:01
Ég bara varð að fá að ræna þessum brandara frá henni Guðrúnu á Þingeyri, mér fannst hann alveg frábær. Takk fyrir lánið Guðrún
Ég fór í verslun um daginn
Ég var bara í 5 mínútur og þegar ég kom út var djöfulsins andskotans lögga að skrifa sektarmiða.
Ég gekk að honum og sagði, "Heyrðu félagi, hvernig væri að gefa mönnum smá sjéns ?" Hann leit ekki á mig og hélt áfram að skrifa sektarmiðann, svo ég kallaði hann blýantsnagandi nasista. Hann leit snöggt á mig og byrjaði að skrifa annann sektarmiða fyrir of slitin dekk undir bílnum.
Þá kallaði ég hann rolluríðandi, hoppandi fáráðling. Hann lauk við að skrifa miða nr. 2 og setti hann á bílinn með fyrsta miðanum.
Svo byrjaði hann að skrifa þriðja miðann !! Svona gekk þetta í um 20 mínútur, því meira sem ég svívirti hann, því fleiri sektarmiða skrifaði hann.
Mér var í raun andskotans sama, en þið hefðuð átt að sjá svipinn á honum þegar ég fór yfir götuna að bílnum mínum, settist inn og keyrði burt.
Hæ
24.6.2008 | 01:12
Ég er hér enn, ekki hætt, ég er bara á fullu að undirbúa flutninga.
Fékk mína yndislegu fjölskyldu til mín, bæði á laugardag og sunnudag til þess að hjálpa mér. Þá fyrst fóru hlutirnir að ganga rösklega.
Reyndar tókst mér heppnu konunni að sparka hressilega í gangstéttarbrún fyrir utan hjá mér þegar ég var að setja dót á pallbílinn og ég svaf ekki á laugardagsnóttina fyrir verkjum í stóru-tánni. Á sunnudagsmorgun skakklappaðist ég með blöðin en þegar ég kom heim var táin orðin þreföld og fjólublá svo ég ætlaði að láta það eftir mér að vera löt og slaka á. En nei, nei, þau birtust öll aftur þessar elskur og ég neyddist til að halda áfram að pakka og þrífa, labba upp og niður stigann, áiiiiii, ég var full af sjálfsvorkun, ha ha og lét það eftir mér að leggja mig þegar þau voru farin.
En mikið var ég þakklát þeim að hafa hjálpað mér, þetta er allt að koma, ég hugsa að ég verði tilbúin að flytja löngu áður en formlegur flutningadagur kemur.
Á föstudagskvöldið var útskriftarpartý hjá nágrannakonu minni, hún og frænka mín sem býr við hliðina á mér voru að koma og bjóða mér, ég sagðist vera feimin og ekki þora því, þá komu þær með tvær bjórdósir og sögðu að ég hefði 7 mín til þess að skella því í mig og drullast á staðinn. Krakkarnir voru við hliðina hjá frænda sínum svo ég dreif mig bara. Ég sé ekki eftir því, það var frábært, ég hitti gamla bekkjarsystir úr barnaskóla og nokkra týnda ættinga. Það var partýtjald fyrir utan, þar sátum við og það var mikið hlegið og sungið. Þar til lögreglan birtist og þaggaði niður í okkur, þá var klukkan orðin 1:30 svo ég ákvað að koma mér heim að sofa. Ef ég hefði ekki þurft að vakna til að bera út hefði ég viljað halda áfram fram undir morgun.
Sko Jóa frænda okkar
19.6.2008 | 13:59
Auðvitað hugsar Jói frændi um okkur litla fólkið. Jói er frændi okkar allra því hann hugsar svo vel um okkur.
Ég bara veit ekki hver á Krónuna en ég er alveg viss um að hann er líka frændi minn og okkar allra.
Ég verð nú samt að segja það að eitthvað hefur verðið hækkað samt á öllum þessum stöðum, ég tek sem dæmi barnaafmæli. Í gegnum árin hefur það alltaf kostað mig í kringum 10.000 kr. að kaupa hráefni í Bónus fyrir afmæli dóttur minnar en núna í júní kostaði það mig tæpar 17.000 kr. Ég er yfirleitt að kaupa sömu hlutina en það getur vel verið að ég hafi keypt eitthvað öðruvísi þetta árið, en það er þó ekki mikil breyting á innkaupum mínum fyrir þessi afmæli.
Það er gott að heyra að einhver skuli vera lækka vöruverð í þessari kreppu.
Áfram Jói.....
Bónus og Krónan lækka vöruverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.júní
17.6.2008 | 22:17
Það var búið að skíra ísbjörninn Ófeig og átti að bjarga honum. Svo allt í einu hrynur þessi draumamynd því ísbjörninn er dauður og ekki nóg með það heldur var þetta ekki Ófeigur heldur Ófeiga. Nú er bara að finna þann þriðja og athuga hvort hægt sé að halda honum á lífi.
Þetta var hálf asnalegur 17.júní hjá mér. Ég er að vakna upp við þann draum að börnin mín eru ekki lengur börn heldur unglingar. Það vildi enginn fara með mér í skrúðgarðinn að sjá fjörið þar, allt í einu eftir 16 ár er ég laus við að fara á allar fjölskylduskemmtanir sem eru og standa í röð í nokkra klukkutíma að bíða eftir blöðru eða hoppukastala. Nú vilja unglingarnir mínir fara þetta með vinum eða sleppa því alveg að fara.
Hvað á ég gamla konan að gera ?
Ég gerði það sem allar stúlkur gera í svona krísum, ég hringdi í mömmu mína og hún fór með mér í skrúðgarðinn, við stóðum þar ásamt Adda bróðir fremst við sviðið og skemmtum okkur konunglega yfir barnadagskránni. Já það er erfitt að láta af gömlum vana.
Annars eru engar nýjar fréttir héðan, ég er bara að pakka, pakka, pakka, og já svo er ég líka að pakka. Skil ekki hvernig er hægt að safna svona miklu drasli, vildi óska þess að ég hefði þor til þess að keyra þetta allt beint upp í Kölku og eyða því, bevítas drasl sem ég kem örugglega aldrei til með að nota á ævinni.
Föstudagurinn 13...........
13.6.2008 | 13:43
Er ekki best að gera sem minnst í dag og bíða eftir að þessi dagur líði hjá. Allavega þeir sem eru hjátrúafullir.
Hafið þið nokkuð heyrt nýjustu fréttirnar ? Það er þetta með Hollendinginn sem situr á klósettinu. Þetta er búið að vera í blöðunum uppá hvern einasta dag núna í tvær vikur. Hann hefur ekkert kúkað, hann kúkaði smá, hann er ekki búinn að kúka öllum fíkniefnunum, bla, bla, bla............
Í gær las ég um "Sundlaugaperrann,, hann fékk 6 mánuði fyrir að fara illa með litlar stúlkur í sundlaug Keflavíkur, það voru 11 stúlkur sem lögðu fram kæru en það var bara dæmt vegna 9 stúlkna (bara 9 stúlkur sem eru að fara út í lífið með þessu ógeðslegu lífreynslu).
Svo las ég blöðin í dag og þar sé ég frétt þess efnis að kona var dæmd til þriggja ára fyrir að stela pening frá ríkinu.
Það er auðvitað miklu hættulegra að stela frá ríkinu heldur en að eyðileggja líf 11 ungra stúlkna, eða hvað ?
Hvað er í gangi í þessu þjóðfélagi, hvernig er hægt að meta líf 11 stúlkna minna heldur en peninga ?
HJÁLP
12.6.2008 | 15:09
Veit einhver hvar hægt er að fá pappakassa (tóma). Ég er búin að vera spyrjast fyrir í búðum en þær eru flestar með pressur, þannig að ekki er hægt að fá kassa hjá þeim.
Þarf ég að flytja í ruslapokum ? Hvar er hægt að fá pappakassa ?
Sól, sól, sól
11.6.2008 | 23:24
Mikið rosalega er búið að vera gott veður í dag, er þetta fyrirboði fyrir einhverju slæmu, ég velti því fyrir mér því yfirleitt eftir gott veður kemur slæmt og svo verra. (ein svartsýn).
Yfirmaður minn sagði við mig kl.9:30 í morgun að þegar ég væri búin með skýrsluna sem ég var að vinna í mætti ég fara heim vegna veðurs. Ég lét sko ekki segja mér það tvisvar og hamaðist eins og hálfviti að klára skýrsluna sem hafðist svo rétt fyrir hádegi.
Þegar heim kom fór mitt litla heilabú að hringsnúast því ég hafði aukatíma sem ég hafði ekki gert ráð fyrir og varð að nýta hann rétt.
Þar sem ég er nú að flytja eftir 2-3 vikur hefði ég auðveldlega getað verið að pakka saman búslóðinni minni en þegar ég var alveg við það að bræða úr heilabúinu hringdi Björg systir og sagðist vera mála sólpallinn sinn, ég ákvað á svipstundu að gefa s... í búslóðina mína og brunaði til hennar að mála.
Það er auðvitað mjög góð ástæða fyrir því að ég gerði það, ef ég hjálpa henni að mála hafa hún og Siggi enga afsökun fyrir því að hjálpa mér að flytja um mánaðarmótin ha ha ha ha
HÆ
10.6.2008 | 19:06
Best að prófa þetta blogg, Ólöf vinkona hældi því í bak og fyrir, þannig að ekki var um annað að ræða en prófa bara.
Ég er svo upptekin núna að ég get ekki meira í bili, langaði bara að setja nokkur orð svo síðan væri ekki tóm.