Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Loksins

Það er svo langt síðan ég bloggaði að ég ætlaði aldrei að muna lykilorðið mitt. Tounge

Ég hef verið á kafi í Facebókinni og haft mikið gaman af.  Eini gallinn við það er hvað hún er  svakalegur tímaþjófur.

Svo hef ég verið rosalega dugleg heima að laga, bæta og breyta.  Þegar ég flutti í litlu íbúðina mína í júlí var áætlunin að vera þar bara í 2 - 3 mánuði því ég sótti um íbúð uppá Vallarheiði þar sem ég hafði ákveðið að fara þar í nám.  Vegna þessa flutti ég bara það sem við þurftum á að halda í þennan stutta tíma og kom hinu fyrir í geymslu hjá mömmu, Adda bróðir og Björg systir.

Einn daginn fékk ég svo bréf um það að ég hafi ekki fengið íbúð þar sem ég vildi fara í fjarnám en ekki dagskóla.  Þá voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við allt dótið sem var út um allt í geymslu og hvernig átti að koma því fyrir í 2ja herbergja íbúð.

Ég er á kafi upp fyrir haus að reyna tilfæra til þess að koma því sem okkur langar að eiga fyrir og ætla svo að reyna losa mig við restina einhvern veginn, þetta eru bara dauðir hlutir hvort sem er.  En þvílík vinna, keyra og sækja kassa, bera þá uppá 3 hæð, fara í gegnum þá, pakka niður því sem ekki á að vera í íbúðinni og bera þá aftur niður af 3 hæð í geymslu.

Það er sko engin hætta á því að ég þurfi að eyða pening í einhverja líkamsrækt þessa dagana því ég fæ hana ókeypis.

Svo var Birna Dögg hætt að nota kojuna sína, svo ég tók hana í sundur og pakkaði henni niður, keypti handa henni skáp með skrifborði í staðinn, setti hann saman og útbjó fyrir hana smá herbergi í stofunni þar sem hún hefur sitt athvarf þessi elska.  Það er alveg ótrúlegt hvað hún hefur tekið vel í það að hafa ekkert herbergi fyrir sig og að þurfa sofa í stofunni með mömmu gömlu því prinsinn okkar er með svefniherbergið.

En sem sagt, nóg að gera og ég get sýnt sárin á höndunum því til sönnunar.  Hér í kotinu mínu er allt að gerast eins og í þjóðfélaginu líka sem ég ætla ekkert að fara ræða hér.

Jæja Óla mín ég vona að þú sért ánægð með mig núna, ég er loksins búin að blogga.  Vona að þú sért búin að jafna þig eftir Noru.


Jólin

Borða, sofa og sofa, borða.

Svona hafa jólin verið hjá mér.  Búin að liggja í flensu öll jólin þannig að ég hef ekki einu sinni farið einn göngutúr, ekki alveg það sem ég hafði hugsað mér en svona er lífið.

Við þrjú í kotinu höfum haft það mjög gott, fórum í mat hjá mömmu og pabba á aðfangadagskvöld og svo aftur í kvöld, veslingurinn hún mamma er búin að vera líka veik öll jólin en hún er samt búin að töfra fram hverja veisluna á fætur annarri, ég veit ekki hvernig hún fer að þessu svei mér þá.

Ég sem nútímakona hefði bara slúttað þessum veislum þangað til heilsan væri betri en móðir mín tók það ekki í mál, allt verður að vera eins og það á að vera.  Sem betur fer var Björg systir með heilsuna í lagi þannig að hún er búin að leggja nótt og dag í að hjálpa mömmu þessi elska.

Hún Sigurrós Birna 5 ára dóttir Bjargar er búin að sofa hjá okkur hérna í tvær nætur á meðan mamma hennar var að skúra, skrúbba, elda og skreyta hjá mömmu.  Það hefur verið fjör hjá okkur, litla íbúðin er algjörlega á hvolfi en það er alveg þess virði.

Sigurrós er nýbúin að fara í 5ára þroskapróf og hún er að tyggja upp hluti sem þar fóru fram eins og að ríma orð.  Hún var ekkert smá stolt af því þegar hún tilkynnti mér rímið við nafnið mitt: Ella - mella Blush

Það tók mig dágóðan tíma að fá hana til að breyta því í Ella - gella.  Hugsið ykkur ef ég færi að sækja hana á leikskólann og hún myndi segja við alla: þarna kemur Ella-mella frænka að sækja mig Shocking


Gleðileg jól

Sendi ykkur öllum jólakveðjur.  Vonandi hafið þið það gott um jólin og áramótin. 

Við þrjú hér í litla kotinu ætlum að vera í jólaskapi og láta ekkert eyðileggja það.  Það verður nógur tími á nýju ári til þess að hafa áhyggjur.

Við erum svo heppin að eiga góða fjölskyldu sem stendur saman og ef eitthvað bjátar á stöndum við ennþá þéttar saman og hjálpum hvort öðru.

Við þrjú höfum fengið hjálp frá þessum góðu ættingjum á árinu sem er að líða oftar en einu sinni  og það eru ekki til orð til þess að tjá þakklæti okkar til þeirra allra.

Guð gefi ykkur góða heilsu til þess að takast á við það sem framundan er..................


Afmæli

Litli drengurinn minn (not) er 16 ára í dag.  Ákvað að breyta út af gömlum vana (kökuveisla að kvöldi til).

Bauð gestum til kirkju kl.11 í morgun, þar var fjölskyldustund með prestinum og Gospelkórnum sem Addi bróðir syngur í.

Þegar það var búið bauð ég öllum heim í súpu ásamt kökum og kaffi á eftir. (vissi ekki að það ætti að bjóða uppá djús og piparkökur í kirkjunni annars hefði ég sleppt því að bjóða þeim heim á eftir Grin)

Þetta var bara alveg frábær dagur, Addi söng eins og engill (eins og vanalega)og auðvitað líka allt hitt góða fólkið í kórnum, kirkjan var full og presturinn í essinu sínu þannig að þetta var mjög gaman.

Kl. 3 var allt búið, fólkið farið, ég nokkurn veginn búin að ganga frá eftir veisluna og dagurinn bara hálfnaður, fór með öll frændsystkinin á Njarðvíkurhólinn að renna á snjóþotum og hafði svo allt kvöldið til chilla......................................

Nú er nýr kafli að taka við í lífi unglingsins: 16 ára, æfingarleyfi, ökukennari, bílpróf.  Það verður ekki aftur snúið, nú verð ég að fara selja bílinn minn og kaupa mér 50.000 króna druslu Crying

Nei, nei Friðrik minn ég er bara að grínast.  Til hamingju með afmælið elsku karlinn minn. 

 


Dægradvöl

HVERS Á ÉG GJALDA ? Angry

Hvað eiga svona einar einmanna kerlingar eins og ég að gera til þess að komast í gegnum kreppuna ?

Ojæja, ég held að ég verði þá bara að fara prjóna eða hekla til þess að stytta mér stundir á meðan kreppan gengur yfir, ekki satt ? Grin

 


mbl.is Spara pening með auknu kynlífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræflar

Ég fór að ráðum Kristbergs sem commentaði hjá mér í gær og tók út færsluna um slagsmálin. 

Ég skrifaði hana þegar ég var nýbúin að skoða myndbandið og var ekki að hugsa rökrétt.  Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef mitt barn lenti í þessu sem þolandi eða gerandi og ég held að engin okkar geti fyrirfram vitað það sem foreldri.   Ég þakka bara fyrir hvern dag sem ég slepp við það.

Ég vona bara að þessir ungu menn fái það sem þeir eiga skilið (í réttarkerfinu okkar) og kannski iðrast þeir gjörða sinna (kannski).

Eigið góða helgi og verið góð við börnin ykkar InLove


Afmæli

Tvær merkiskonur eiga afmæli í dag.  Hún Sigrún er 40 ára í dag, sendi henni hér með hamingjuóskir, hún er aftur orðin einu ári eldri en ég, erum búnar að vera jafngamlar í 10 daga.

Svo er það hún Björg amma mín sem á afmæli í dag og er orðin 92 ára.  Óska henni til hamingju með daginn og þakka gott boð í veisluna í kvöld.

Það dettur engum í hug hvað verður á boðstólnum hjá henni í kvöld.  Það verður Pizzaveisla W00t

Hefur einhver farið í pizzaveislu hjá 92 ára gamalli konu ?

Hún amma mín er sérstök.  Hún er ekki tilbúin að viðurkenna aldur sinn, þrammar upp stigana uppá þriðju hæð í heimsókn til mín af því að ég gleymi alltaf að heimsækja hana.

Fyrst að ég kem ekki til hennar, þá kemur hún til mín og gefur það ekkert eftir þó að hún sé alltaf með svima sem gæti nú valdið því að hún færi rúllandi niður þessar þrjár hæðir hjá mér.

Hún elskar Pizzu en þar fyrir utan er hún alltaf að passa línurnar og það fer ekki hvað sem er ofan í hana (ekki of mikið salt eða sykur) enda er hún tágrönn og ég mætti sko alveg taka hana mér til fyrirmyndar.

Hún segist alltaf vera löt, hún nenni ekki neinu.  Ég er alltaf að reyna segja henni að hún sé ekki löt, bara 92 ára, en þó að hún segist vera löt er hún samt að prjóna, perla, vinna í gler, mála, spila vist og ég veit ekki hvað meira.  Ég kalla það nú ekki leti miðað við aldur, eða hvað ?

Góða helgi og njótið þess að vera til Halo


Við þurfum ekki vorkunn þeirra

Til hvers þurftum við að komast í þetta sæti ?  Getur einhver útskýrt það fyrir mér ?  Hefði þetta sæti gefið mér betri laun, lægri matarverð, betri þjónustu, gert mig að betri manneskju, gefið mér almennt öryggi í lífinu, hjálpað börnunum mínum ?

Ef þetta var svona svaðlalega mikilvægt, afhverju hef ég þá ekki heyrt eina hræðu tala um þetta hingað til ?

Hún Ingibjörg getur komið í heimsókn til mín, ég á sæti handa henni og það er nokkuð öruggt, reyndar keypt í IKEA en það hlýtur að þola hana.

Á ekki bara að einbeita sér að því að laga hlutina hérna heima núna.


mbl.is Bretar vorkenna Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga húsið í tvennt

Ég er hrædd um að það þýddi ekki að saga húsin í tvennt við skilnað hér á landi.  Það yrði ansi napurt að búa í hálfu húsinu með allt opið út.  Ég hugsa að innbúið færi út í buskann við rokið sem einkennir okkar góða land.
mbl.is Söguðu húsið í tvennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sunnudagsrúnturinn

16 ára sonurinn fann engan karlkyns fjölskyldumeðlim í dag á lausu til þess að taka rúnt með hann á grænu þrumunni hans Sick

Þá var leitað til mömmu gömlu, hún er víst betri en enginn.

Ég ákvað að taka nokkra rúnta með hann á Hafnargötunni.

Mér leið eins ég væri 16 ára að læra keyra hjá pabba gamla, hann byrjaði á tilkynna mér það að ég yrði að setja bílinn rétt í gang því annars myndi ég gera hann að fífli, mamma þú verður að þenja bílinn í botn um leið og þú startar annars fer hann ekki í gang.  Já, já, ókei, svaraði ég pirruð og hugsaði með mér, hvað er 16 ára barn að segja mér hvernig á að starta bíl Angry

Mér mistókst þetta auðvitað og bíllinn fór ekki í gang fyrr en á öðru starti, drengurinn skammaðist sín svo, það lá við að hann færi út úr bílnum og öskraði á bílaplaninu: "Það var MAMMA sem var að starta bílnum mínum, ekki ég."

Svo var lagt í Hafnargötuna með sínum 10 hraðahindrunum eða eitthvað þar um bil.  Bíllinn fer alls staðar upp undir svo að það verður að fara yfir hverja hindrun á -5.  Ég gaf smá í og ætlaði svo að negla niður við fyrstu hraðahindrun þá heyrði ég angistaróp frá unglingnum mínum.  MAMMA, hvað ertu að gera ? Ætlaru að taka allt undan bílnum ?  Þú verður að bremsa, ná hraðanum niður og vera svo búin að sleppa bremsunni áður en þú ferð yfir hindrunina.  Ertu gengin af göflunum kona ?

Ég lofaði öllu fögru og reyndi að keyra eins og manneskja það sem eftir var af rúntinum, skáskaut augunum annað slagið á unglinginn minn og hugsaði með mér: Hvernig komst ég í þessa stöðu, ég er að verða fertug og hef hingað til ekki lent í óhappi sem ég man eftir.  Allt í einu er 16 ára barn farið að segja mér hvernig ég á að keyra.  Hvar endar þetta ?

Ég náði að klára sunnudagsrúntinn slysalaust en þegar heim kom var ég hálfgerð taugahrúga eftir þessa kennsluferð svo ég tali nú ekki um hausverkinn sem ég var með eftir þessa líka yndislegu tónlist sem var spiluð í botni allan rúntinn þ.e. þegar ungi maðurinn var ekki að segja mér til. 

087


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband