Leyndarmálið
13.8.2008 | 23:44
Ég lét verða af því að kaupa mér tvær bækur sem mig hefur lengi langað til að eignast, sú fyrsta er "Leyndarmálið,, og hin "Þú átt nóg af peningum,,
Ég las Leyndarmálið þegar ég var fyrir norðan, ég verð að segja eins og er að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hana. Ég var búin að heyra svo mikið um hana, hún átti að gera kraftaverk á fólki. Það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að selja með góðri auglýsingaherferð.
Það sem fór mest fyrir brjóstið á mér var að skv. bókinni á ég að hafa laðað að mér allt það slæma sem fyrir mig hefur komið um ævina.
Ef fólk deyr ungt t.d. í slysi þá hefur það fólk laðað að sér þær aðstæður, sama er sagt um sjúkdóma. Ungt fólk í blóma lífsins á að laða að sér krabbamein og/eða dauða t.d. í bílslysi af því það hugsaði ekki nógu góðar hugsanir.
Samkvæmt bókinni hefur fólk vaknað upp frá dauða vegna þess að það hugsar um að gera það. Kona ein á að hafa læknast af brjóstakrabba með því einu að hugsa um það daglega að hún væri læknuð.
Ég hef nú lesið blogg hjá nokkrum ungum konum sem hafa síðan dáið úr krabbameini og ég hef aldrei kynnst jafn jákvæðum, bjartsýnum, vongóðum og baráttuglöðum manneskjum, það skal enginn segja mér að þær hafi ekki hugsað um að ætla sér að sigra krabbann.
Bókin segir að sjúkdómar geti ekki náð fótfestu í heilbrigðum líkama, ég held að sjúkdómar herji jafnt á allt fólk, hvernig sem líkamlegt/andlegt ástand þeirra er. Það er sagt að ef þú býrð við skort, ert fórnarlamb aðstæðna eða sjúkdóma, er það vegna þess að þú trúir ekki á orkuna sem býr innra með þér.
Pabbi minn er einn af þeim sem hafði það fínt hér á árum áður, hann átti bát með kvóta sem hann réri sjálfur á og gekk vel. Allt í einu var kvótinn skorinn niður í 0 og það endaði með því að hann seldi bátinn fyrir einhverja aura og dugði samt ekki til fyrir skuldunum. Samkvæmt Leyndarmálinu á hann að hafa hugsað um auðæfi á meðan vel gekk en svo leyfði hann ótta að taka völdin og þá tapaði hann kvótanum. Það voru ekki hinir háu herrar Íslands sem settu hann á hausinn heldur hann sjálfur með neikvæðum hugsunum (skv.bókinni).
Ef mig langar að grennast á ég ekki að fara í megrun heldur hugsa um að ég sé komin í kjörþyngd og þá fara kílóin að fjúka af mér.
Ástæðan fyrir því að ég á ekki peninga er að ég loka fyrir flæði þeirra til mín með neikvæðum hugsunum. Ef ég er að drukkna í ógreiddum reikningum, á ég ekki að hugsa um leið til þess að borga þá heldur á ég að hugsa um að ég eigi pening fyrir þeim og líka fyrir öllu sem mig langar að kaupa mér. Ég á að ímynda mér að óopnaðir reikningarnir séu ávísanir.
Bókin er ekki alslæm, það eru nokkrar setningar í henni sem gripu mig eins og það að ég verði að elska sjálfa mig til þess að geta elskað aðra. Málið er bara það að ég vissi það nú þegar og hefði getað sparað mér 3.000 kr. með því að segja mér það sjálf.
Ég er byrjuð á hinni bókinni, vonandi verð ég jákvæðari gagnvart henni og þá fer kannski póstkassinn minn að fyllast af ávísunum (ekki gúmmí).
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Öllu má nú græða peninga á og þær eru orðnar ansi margar þessar bækur sem eiga að gera okkur svo fullkomin. Það er auðvitað gott ef fólk finnur hjálp í sjálfshjálpar bókum, finnst þetta bara komið stundum út í smá öfgar. Var búin að heyra svo mikið lof um Leyndarmálið en fór svo að spyrja út í hana og finnst mér þetta bara vera common sence. Auðvitað gengur allt betur ef maður er jákvæður, hver veit það ekki, en að segja að ekkert komi fyrir mann ef maður er með réttu straumana, common. ÖFGAR.
Hlakka til að heyra um hina bókina. Ef hún virkar þá kaupi ég hana .
Knús á þig og eigðu besta dag í dag.
Elísabet Sigurðardóttir, 14.8.2008 kl. 11:33
Hvurslast vitleysa er þetta nú.....öllu má nú gefa nafn!! "Leyndarmálið" það er enginn smá titill á bók...það hefði þá mátt vera eitthvað leyndarmál í henni..það þarf enginn að segja mér það sem ég ekki veit....auðvitað er gluggapóstur bara ávísun á gleði og ég hef alltaf séð mig í spegli sem granna fallega konu..svo ég hlít að vera það
Hafðu góða helgi.....
barainga (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 20:08
Ólöf, ég læt þig vita þegar ég er búin að læra eignast pening. Bára mín, það þarf greinilega ekki að segja þér leyndarmálið, þú veist þetta alveg,
Elenora Katrín Árnadóttir, 15.8.2008 kl. 23:16
Já það er ekki öll vitleysan eins !! það má ekki taka öllu bókstaflega systir !
Árni Árnason, 21.8.2008 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.